Aldan

laugardagur, desember 29, 2007

Sápuóperan heldur áfram...

Í gærkvöldi fór ég í heimsókn á smitsjúkdómadeildina A7 á Landspítalanum. Er það eitthvað sem maður vill í raun og veru gera? Heimsækja fólk á smitsjúkdómadeildinni? En allavega, byrjum á byrjun. Michael og Anna fóru í apótek í gær, hann var búinn að finna fyrir verk í fætinum og ætlaði að fá sér verkjatöflur. Þau fengu samt einhvern til að kíkja á fótinn í apótekinu og var bent á að halda beint upp á spítala. Eftir þó nokkrar rannsóknir og kom í ljós að hann var með blóðtappa í fætinum og var strax lagður inn. Hann var svo færður upp á smitsjúkdómadeild vegna þess að hann hefur dvalið á erlendum spítala einhvern tímann á síðustu 6 mánuðum. Við fórum svo í heimsókn til hans í gær eftir matarboðið hjá Úllu. Maður gekk eftir löngum ganginum, hann var í stofu á enda gangsins. Flest herbergjanna voru hálf opin, önnur kyrfilega læst og utan á hinar ýmsu merkingar sem gáfu til kynna hvaða ráðstafanir maður þyrfti að gera áður en haldið væri lengra, hvort sem það voru hanskar, sloppar, grímur eða það sem við átti. Á einni hurð var miði með áletrun á pólsku, fyrir neðan stóð að maður þyrfti að hafa samband við hjúkrunarfræðing áður en gengið væri inn. Þar sem Michael var gekk maður inn í lítið herbergi þar sem maður setti á sig slopp og hanska, þetta var hálf óhugnalegt allt saman. Hann má þó eiga að hann var líklega með besta útsýnið á öllum spítalanum, hornsvíta með útsýni yfir Kópavoginn, þó hann verði kannski þarna yfir áramótin, þá er það ekki alslæmt.

Ég verð þó að deila með ykkur þeirri staðreynd að ég fór á klósettið þarna. Aftur, er það eitthvað sem maður vill gera? Nota salernisaðstöðu á smitsjúkdómadeild? Ég held ekki, gerði það nú samt. Fyrir utan að það var skurðlæknahanski upp í loftinu, yfir reykskynjaranum og búið að rífa aðeins úr innréttingunni svo það sást í rör, já svona eins og einhver æta hefði komist í viðinn og það þurft að rífa smitaða svæðið í burtu. Eins hrifin og ég er af almenningssalernum þá var þetta ekki mín skemmtilegasta upplifun, það má segja að för mín á salernið á Burger King við Tottenham Court Road í London hafi verið skemmtilegri í minningunni, hún hefur lengi átt titilinn af verstu salernisreynslu seinni tíma! Þar voru allar flísar á veggnum brotnar, hurðin hálf rifin af hjörum, vaskurinn lak og allt ógeðslega skítugt þar inni. Klósettin á flugvellinum í Barcelona gáfu líka skemmtilega reynslu og ef ég held áfram að tala um klósettferðir þá man ég líka eftir ákveðnu klósetti inn í Barcelona sem helmingur af Snúrunum fékk að prufa, kamarinn hjá pizzastaðnum nálægt Gaudi garðinum, muniði eftir honum?? Þar sem við fengum okkur að borða undir bleiku blómunum. But you gotto go when you gotto go!

Ég þarf að fara í sturtu núna :S

miðvikudagur, desember 26, 2007

Tungumálaörðugleikar

Mín yndislega, frábæra en klikkaða systir dvelur hjá okkur núna yfir jólin ásamt tengdaföður sínum honum Michael. Þessi maður er algjör gullmoli eins og Robin sonur hans var.

Málið er að hann fékk buxur í jólagjöf frá fjölskyldunni sem þurfti að stytta og mamma gerði það í gær. Í morgun þegar hann kemur fram segir hann að hann sé með slæmar fréttir fyrir hana og sýnir henni hvernig önnur skálmin er miklu styttri en hin. Mamma fékk alveg sjokk og skildi bara ekkert hvernig hún hefði farið að því að gera svona svakaleg mistök þegar hún hafði mælt allt nákvæmlega. Það var frekar húmað í stofunni og hann bað hana um að kveikja ljósin til að skoða þetta nánar, því það væri sko öruggt að annar fóturinn hefði ekki vaxið um einhverja sentimetra yfir nóttina. Þegar hún kveikir ljósin og fer að þreifa á þessu þá sér hún að hann hafði brotið upp á buxurnar bara til að stríða henni. Hún hló svo mikið að hún kafnaði næstum því. Hann er alveg agalegur kallinn.

Það er ekki hægt að segja að hún móðir mín sé sú snjallasta í enskunni, en hún má þó eiga það að hún reynir að gera sig skiljanlega. Michael er albreskur og auðvitað ganga samskiptin ekki alltaf greiðlega.

Um daginn hafði móðir mín áhyggjur af því hvort honum væri nokkuð kalt á nóttinni, svo hún spurði hann hvort það væri flísefni í náttfötunum. Á meðan hún tók í efnið spurði hún: Flís? Michael, flís? Aumingja maðurinn var niðurbrotinn þegar hann spurði Önnu svo nokkru seinna hvort hún héldi virkilega að hann væri með flær!

Annars er kallinn alveg þrælskemmtilegur, húmoristi með meiru og reynir við alla kvenmenn á svæðinu. Ég vorkenni öllum gengilbeinunum sem hafa lent á honum. Nú situr hann inni í herbergi og reynir að finna út hvernig hann getur platað hana á morgun.

mánudagur, desember 24, 2007

GLEÐILEG JÓL!!

miðvikudagur, desember 19, 2007

Tuð

Þið eru aldeilis lélegir kommentarar!! Vildi bara koma þessu frá mér!

Jólaskap
En að öðru, því það þýðir víst lítið að hóta ykkur eða nöldra, svona hlutir breytast víst seint. Eru þið komin í jólaskap? Ekki ég, ég reyndi um daginn. 3/4 hlutar Menningarklúbbsins tóku eitt sunnudagskvöld frá og vonuðust til að "jólajóla" andinn myndi hellast yfir. Ekki voru allir upplagðir til baksturs en heiðarleg tilraun var gerð. Við vorum fljót að hella í eina uppskrift eða svo, svo notfærðum við okkur nýjasta trendið í dag sem fólst í tilbúnu piparkökudeigi sem hverfisverslunin bauð upp á. Á meðan smákökulyktin fyllti húsið, voru spiluð jólalegustu jólalögin og setið við Trivial Pursuit. Yndæliskvöld, en markmiðinu ekki náð. Smá fiðringur fannst þó, kannski hann alveg komi með jólafríinu. Jólafrí, ég er að fara í jólafrí! Heil vika í fríi. Mig rámar í að það hafi gerst síðast þegar ég var í grunnskóla, jólafríið þá. Hvað er ég búin að nefna jólafríið oft?

Partý
Ég mætti í partý hjá góðvinkonum mínum á laugardag, hitti þar fyrir tvo einstaklinga frá S-Afríku sem hafa undanfarinn einn og hálfan mánuð stundað það að gista hjá ókunnugum. Þau hófu ferð sína á mánaðarreisu um Noreg og eru nú komin til Íslands og ætla að eyða jólum og áramótum hér. Þau eru að ferðast á svokölluðu sófahoppi, fólk býður því að gista heima hjá sér endurgjaldslaust. Ég veit ekki hvort ég gæti gert þetta, verið upp á ókunnuga komin. Þú veist aldrei á hvernig fólki þú lendir eða hvernig gististöðu þér verður boðið upp á. Þetta kalla ég ævintýramennsku, ég er alveg til í smá ævintýri en finnst skemmtilegra ef nóttinni er eytt á 4 stjörnu hóteli. Þau sögðust hafa kynnst ákaflega áhugaverðu en líka skrýtnu fólki á leið sinni, báru Íslendingum þó vel söguna og sögðu að undarlegasta fólkið hér á Íslandi hefðu verið Svíar. Þau eiga enn hálfan mánuð eftir, ég er viss um að þau eiga enn eftir að rekast á einhverja íslenska rugludalla sem slá Svíana út! Annars var kvöldið einstaklega vel heppnað. Eftir bæjarferðina söfnuðumst við nokkur saman í heimahúsi nálægt miðbænum og elduðum saman morgunmat um 4-5 leytið. Á meðan þetta var venjulegt djammkvöld fyrir okkur Íslendingana þá fannst Suður-Afríkubúunum þetta villt!

Anna
Uppáhaldssystir mín er að koma til landsins á morgun! Hún kemur með tengdó með sér svo það verður örugglega ansi þröngt á þingi hjá okkur næstu 2 vikurnar. Það verður breyting frá því í fyrra þegar við mæðgurnar vorum tvær heima með kettina. Það verður yndislegt að fá þau!

Jólajóla :)

föstudagur, desember 14, 2007

Sannleikurinn er..

að heiðurinn af færslunni hér að neðan á Flugmaðurinn. Nú skal ég skýra málið fyrir ykkur. Þannig er mál með vexti að um daginn vaknaði ég við tónlist sem var frekar hátt stillt. Ég hélt í fyrstu að þetta væri síminn minn en komst svo að því að græjurnar höfðu farið í gang af sjálfum sér. Ég stökk fram úr rúminu og ætlaði að slökkva á þessum hávaða en það gerðist ekki neitt, ég reyndi nokkra takka og áfram ómaði Páll Óskar, fjarstýringin virkaði ekki heldur. Til að stoppa þetta þurfti ég að kippa öllu draslinu úr sambandi. Auðvitað var maður skelkaður, það fyrsta sem maður hugsar er "Draugagangur", þó á maður að vita betur. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist því um daginn þá kviknaði á segulbandstækinu af sjálfum sér líka, það fannst mér reyndar óhugnalegra. En svo við víkjum aftur að Draugasögunni, ég sagði Flugmanninum frá þessu og það fyrsta sem hann segir er : Ég veit alveg hvað þetta er... og svo romsar hann þessari svakalegu sögu út frá sér, segir mér að húsið mitt sé byggt á gömlum grafreit og já.. þið lásuð þetta. Þið sem hafið lesið hann vitið að hann er þrælgóður penni og hugmyndaríkur með meiru, það var ekki erfitt fyrir hann að koma með eitthvað svona á nóinu. Tilgangur líklega til að athuga hversu langt hann gæti gengið með mig. Sagan var svo bara svo djöfulli góð að ég bað hann um leyfi að setja á bloggið, hann tók hana saman fyrir, breytti smá og afraksturinn sáuð þið hér að neðan!

Hvað segið þið um þetta ;)

p.s. ég vil benda fólki á að lesa nýjustu færslu Flugmannsins. Hún er líka djöfulli góð!

þriðjudagur, desember 11, 2007

Draugagangur

Ég hef orðið var við mikin draugagang heima undanfarið. Síðasta atvikið átti sér stað fyrir nokkrum dögum þegar ég sat inní stofu og var að lesa bók, allt í einu kveikja græjurnar á sér. Fyrst er skipt nokkrum sinnum um stöð, en svo fer geislaspilarinn af af stað. Ég byrjaði að ýta á power takkann á fjarstýringunni, en það virkaði ekki. Þá ýtti ég á power takkann á græjunum sjálfum en það virkaði ekki heldur. Að endingu tók ég græjurnar úr sambandi. Þið hafið heyrt mig segja sögur af eldavélinni, ísskápnum og þurrkaranum. Öll hafa þessi tæki bilað á mjög undarlegan hátt.

Mamma var alveg viss um að rafmagnið hér í húsinu væri eitthvað skrítið og fékk því mann til að koma og mæla það. Það reyndist vera í lagi, en maðurinn sagði okkur sögu af kirkju sem var hér nálægt, ég ákvað því að fara á Þjóðarbókhlöðuna og lesa mér til um þetta.

Ég kemst fljótlega að því að húsið mitt er byggt á gömlum grafreit, sem tilheyrði þessari kirkju. Það kom ýmislegt í ljós þegar verið var að grafa grunninn, m.a. gröf með tveimur beinagrindum, líklega karli og konu. Það sem var merkilegt við það var að í þessari gröf átti að vera gömul kona. Hún fannst hvergi. Annað sem var merkilegt við þessa gröf er að líkin snéru öfugt miðað við öll hin líkin í garðinum. Verktakarnir fengu það verkefni að flytja garðinn og voru öll beinin, að því er talið var, grafin í einni gröf inní Fossvogi.
Einhverjir vildu meina að það hefði ekki verið rétt staðið af þessu og að grunnurinn hefði ekki verið hreinsaður almennilega. Verktakinn fékk bara eina greiðslu og því hounm í hag að klára verið með sem minnstum tilkostnaði.

Kirkjan sem stóð hér stóð rétt innan við það sem síðar varð Hringbraut, þegar Hringbrautin náði utan um Reykjavík, u.þ.b. þar sem hús Ríkislögreglustjórans er í dag. Þá var ekki landfylling hér norður af og kirkjan stóð nálægt lágri klettabrún. Þá voru tvær aðrar kirkjur í Reykjavík, Dómkirkjan og kirkja úti á nesi.

Ógæfufólk og rónar bjuggu í nágrenni við þessa kirkju. Sagan segir að þegar hafi farið að vetra eitt árið hafi þeir gert sig heimankomna í kirkjunni. Mjög kalt hafði verið og ógæfufólkið sem bjó í lélegum húsum og hreisum sá að betra var að búa í hlýrri kirkjunni en kulda og trekk. Prestur safnaðarins hreyfði auðvitað mótmælum, en bækur segja að sýslumaðurinn hafi á enda ákveðið að það væri betra að leyfa fólkinu að vera þarna en að það myndi deyja úr kulda.

Ógæfufólkið gekk ekki vel um kirkjuna og bar litla virðingu fyrir hinum helga stað. Prestinum var ofboðið og fór svo að hann fór að kirkjunni eitt kvöldið og afhelgaði hana. Sama kvöld skellur á mjög vont verður. Sjórinn barði klettana fyrir neðan kirkjuna eins og hann ætti lífð að leysa. Öðru hverju gekk sjór á land og jafnvel yfir kirkjuna. Húsin í bænum láta illa, enda var þetta líklega versta veður í manna minnum. Það hrikti í kirkjunni og marrið og brakið vekur óhug hjá ógæfufólkinu, sem hafði setið daglangt að drykkju. Nú var ekki lengur hægt að ganga á milli bæja á suðvesturlandinu. Það var eins og veðurguðirnir væru að ganga af göflunum. Kirkjan byrjar að nötra og skjálfa, það er líkt og smá jarðskjálftar séu að hrista hana stöðugt. Bjöllurnar byrja að hringja og ógæfufólkinu finnst eins og það heyri óp ofan úr turni krikjunnar. Hvínandi vindurinn er ekki til að róa fólkið. Öldurnar berja enn fastar á klettunum.
Skyndilega kemur stór alda, sem tekur með sér kirkjuna, og alla hennar gesti, í einni svipan. Eftir stóð grunnurinn einn, ekki svo mikið sem eina flís var að finna af kirkjunni.

Fólk á nálægum bæ segir að það hafi heyrt kirkjuklukkurnar deyja út eftir því sem kirkjan fjarlægðist land. Aldrei bar nokkurn hlut úr kirkjunni aftur að landi og ekki sást neitt frekar af ógæfufólkinu. Í sama mund og þetta gerist fer veðrið að ganga niður. Fljótlega er óveðrið orðið minning ein.

Þetta til viðbótar við þá staðreynd að húsið mitt er á grafreit þar sem grafin voru óþekkt lík fær mig til að hugsa hvort þetta geti verið skýringin á bakvið þessi rafmagnsvandræði. Það má líka minnast á það að bíllinn minn bilaði, sem og fleiri bílar í húsinu. Ég man eftir einum degi þar sem það voru 4 bilaði bílar niðrí bílageymslu, þar á meðal nýr Volvo!

Ef fólk efast um þessa sögu mína bendi ég því á að fletta upp í þjóðsögum Jóns Árnasonar, þar er þessi saga í mun meiri smáatriðum.

mánudagur, desember 10, 2007

Litur

Hef svo sem ekki frá neinu að segja, en vildi sýna lit svo þið fáið hér sorglega dagbókarfærslu...

Fimmtudagur, vaknaði klukkan 18 við að klukkan hringdi. Bölvaði henni í sand og ösku þar til ég mundi afhverju ég þurfti að vakna. Menningarklúbburinn hafði planað hitting, alltaf gaman að hitta það pakk. Skellti mér í sturtu og reyndi að forðast að bera of mikið af sæt-lyktandi kremum á mig þar sem ég fæ all oft komment um að ég lykti eins og nammi... Nína elskan sótti mig á grænu hættunni sinni og við héldum áleiðis á Vegamót. Auðvitað var allt pakkað þar svo við ákváðum að prufa eitthvað nýtt, Kaffi Oliver varð fyrir valinu. Fyrir utan að hafa næstum frosið í hel þarna, þá var staðurinn svo sem alveg ágætur. Þjónustan var reyndar hræðileg en maturinn bætti svo sem upp fyrir það þó við hefðum ekki alveg verið búin að plana svona "stóra" máltíð, þá var kalkúnninn lostæti og alls ekki dýr... Auðvitað var mikið spjallað en þegar Hanna var farin að biðja um þriðja jakkann til að leggja á herðar sér, þá var tími til kominn að yfirgefa staðinn. Indælt kvöld sem lauk með kakó á Café París.

Föstudagur. Eitthvað er dagurinn nú gloppóttur, ætli ég hafi ekki sofið hann af mér eins og alla aðra þessa dagana. Ég man þó eftir því að hafa vaknað við ilminn af Moussakanu sem ég sá svo allt kvöldið eftir að hafa étið, stinkaði af hvítlauk enda örugglega heill hvítlaukur í þessu. Eníveis, skellti mér aftur í sturtu (jújú, alltaf sama rútínan).. Snúrurnar höfðu planað Singstar partý og undirrituð auðvitað heiðursgestur út af öllu þessu drasli sem hún er búin að vera sanka að sér. Ég mætti "fashionably late" en var samt sú fyrsta á svæðið. Mætingin var heldur dræm vegna próflesturs, landfræðilegra vandkvæða og svefnleysis. En ég skemmti mér stórvel... Dvergurinn tók auðvitað glæsilega á móti gestum sínum, eins og vanalega og við sem mættum sátum þarna í vellystinum milli þess sem við kjöftuðum og sungum. Eitthvað lið dró mig svo í bæinn, bíllinn kom fullur (eða voru þau full, ég man ekki) en allavega við fórum á bæjarrölt sem þrátt fyrir kulda og biðraðir var bara alveg stórgaman. Stórskemmtilegt kvöld og tónlistin í betra lagi á þeim stöðum sem við fórum á, greinilega einhver nostalgía í gangi.

Aníveis, Ríkharður þriðji býður eftir mér... seinna :)

fimmtudagur, desember 06, 2007

Stolið af Hebulíusi :)

Árið 2007.

1. Have you had any accidents this year?
Nei, ekki svo ég muni...

2. Have you had your birthday yet?
Já... 1. Ágúst, bauð meira að segja fólki heim í tilefni þess og það MÆTTI:)

3. Cried yet?
Ójá! Oft og mikið.

4. Been on a diet?
Uhh... það er ekkert spurt um hvort hún hafi verið árángursrík... en jújú.. svona þannig..

5. Pulled an all nighter?
All the time, baby, all the time!

6. Drank Starbucks?
Reyndar, bæði í UK og USA. Reyndar var ekkert kaffi í þessu, bara creme frappucchino!

7. Went Camping?
Nei, ertu vitlaus!

8. Bought something(s)?
Sko, 3 utanlandsferðir.. segi ekki meir:)

9. Met someone special?
Ekki hinn eina sanna, en já.. hitt marga skemmtilega :)

10. Been out of state?
Já, meira að segja flogið af landi brott nokkrum sinnum.

12. What are you thinking about?
Rúmið mitt!
___________________________________________
1.) Hugged someone?
Já, fullt alveg.

2.) Slept in someone elses bed?
Jamm...

3.) Got a job?
Hef verið í sama starfinu í næstum 7 ár

4.) Loaned out money?
Ekki var það nú mikið...

5.) Gotten in a car accident?
Nei, eða telst það með ef ég var ekki inn í bílnum þegar það skeði en það var samt mér að kenna? Segjum bara nei.

6.) Gone over your mobile phone bill?
Úff... Ameríkuferðin var ekki ódýr sko.

7.) Been called a slut?
Hahaha.. já! Garðar, ætlaru að útskýra þetta??

8.) Done something you regret?
Jámm....

LAST :
_________________________________________________________
Last Person you hugged?
Mömmu..

Last Person to call you?
Uhhh... mamma.. iss hún VAR bara að hringja.. má ég ekki segja þar á undan? Jú, geri það.. Ellen :)

When was the last time you felt stupid?
Það var fyrir nokkrum klst síðan.

Who did you last yell at?
No comment :)

What did you do today?
Svaf og vann... það eina sem ég geri þessa dagana.. ég hefði átt að bíða með þetta þar til í kvöld!

TEN FACTS :
___________________________________________________________
01. Name?
Alda Hanna

02. Natural hair color?
Mahóný... I wish.. sauðaliturinn

03. Initials?
AHG

04. Hair style?
Allt ALLT of stutt! Ég er alltaf að lenda í þessu.. Brúnt með strípum!

5. Eye color?
Græn augu.

06. Height:
181cm..

07. Pets:
Símon og Mikki

08. Mood?
Þreytt

09. Where would you rather be?
Í heitum potti upp í sumarbústað, já eða í útlöndum. Reyndar hvar sem er, bara ekki hér.

10. What was the last thing you drank?
Vatn..

TEN THINGS ABOUT YOUR LOVE LIFE:
___________________________________________

01. Have you ever been in love:


02. Do you believe in love?
Já... ég vona að ástin sé til..

03. Why did your LAST relationship fail?
Hvaða samband?

04. Have you ever been heartbroken:
Jámm

05. Have you ever broken someone's heart?
Efast um það..

06. Have you ever fallen for your best friend?
Hehe fyndinn.. Næsta spurning...

07. Have you ever liked someone but never told them?
Já oft.

08. Are you afraid of commitment?
Nei alls ekki.

10. Have you had more than 5 different serious relationships in your life?
Nii..

4 EMOTIONS
___________________________________________________________
01. Are you missing someone right now?
Já :(

02. Are you happy?
Skilgreindu happy!

03. Are you eating anything?
Nei, en ég er enn að plokka kjötið af mandarínunni úr tönnunum á mér, telst það með?

04. Do you like someone right now?
Jamm...

Þreyta

Ég er hér að leka niður úr þreytu, eftir u.þ.b. einn og hálfan tíma þá verð ég komin í 2 daga frí... 2 daga frí hef ég ekki átt í lengri tíma....

Listi um það sem ég ætla að gera í fríinu

Taka til og þurrka af
Fara í gegnum skápinn (já, aftur)
Hengja upp jólaseríur (restina)
Kaupa Jólagjafir
Fara í ræktina
Hitta Menngó á kaffihúsi
Læra (já ég er enn í skólanum)
Laga til í geymslunni
Senda jólakortin
Snúrupartý
Taka til í tölvunni
Knúsa strákana
Kíkja á íbúðina hjá Örnu og co.
Heimsækja ömmu og afa

Listi yfir það sem ég mun gera í fríinu

Hitta Menngó á kaffihúsi
Snúrupartý
Knúsa strákana

Lengi lifi mandarínur :)

miðvikudagur, desember 05, 2007

Þetta Feisbúkk dæmi

Ég get ekki sagt annað en að ég hafi voða gaman af þessu, þetta hefur bjargað nokkrum næturvöktum hjá mér. Fyrir utan alla leikina og prófin þá getur maður gert ýmislegt við vini sína, hvort sem það er dónalegt eða bara sætt... fyrr í kvöld hafði ég t.d. samfarir við Jésúbarnið "Crouching Tiger Style", í dýragarði fyrir framan apabúrið og við reyktum sígarettu eftir á. Svo "dýrkaði" ég aðra vinkonu mína, tók gáfnapróf sem sýndi fram á að ég væri yfir meðaltali gáfuð sem er auðvitað bara heilagur sannleikur og svo margt, margt fleira. En svo er annað skemmtilegt sem maður getur gert, það er að njósna um strákana sem maður var eða er skotinn í, skólavini og vinkonur sem maður talar aldrei við í dag. Flestir eru með opnar síður svo maður getur skoðað myndir, hvað þeir eru að bralla þessa dagana, hvaða vini þeir eiga, hvort þeir séu enn á lausu og fleira... þetta er voða gaman. Ég er samt alltaf svo hrædd um að þeir "sjái" að ég hafi verið að skoða síðuna hjá sér. Fyrir nokkru las ég að það ætti að koma stilling sem sýndi það hverjir væru að skoða, hvað ef ég missi af tilkynningunni þegar þetta er sett upp og skoða síðu hjá strák sem er að fylgjast með gestum! Ég myndi verða miður mín, kannski búin að skoða "vininn" nokkrum sinnum í viku.. Vinur minn reyndi að hughreysta mig og sagði að það yrði ólíklegt að þetta kæmi og í versta falli gæti maður kannski afmáð spor sín. Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að geta litið framan í þetta fólk ef ég hitti það á förnum vegi, yrði svo skömmustuleg... Ég vil geta séð hverjir skoða mig en ekki öfugt:-)

Ein skömmustuleg