Aldan

fimmtudagur, mars 20, 2008

Flutningur

Þá er komið að því, þetta virðist vera í tísku og auðvitað fylgir maður tískunni...

Ég er flutt á http://aldahanna.bloggar.is/ og það mun verða læst blogg :) Áhugasamir geta sent mér tölvupóst, talað við mig á msn, á facebook eða jafnvel í gegnum síma (þ.e.a.s. þeir sem eru ekki búnir að eyða mér úr símaskránni sinni ;) ).

Það er strax komin færsla inn... ætla að verða duglegri :)

Ástarkveðjur,
Alda :)

þriðjudagur, mars 18, 2008

Hvað er af mér að frétta..

Nú, við getum byrjað á þeirri staðreynd að ég hélt um daginn að það væri að vaxa heill lokkur af gráum hárum á höfði mínu! Ég var miður mín og vældi eitthvað í Netverjanum út af þessu, hann var eins vingjarnlegur og honum einum er lagið og sagði uppörvandi að minn "tími" væri kominn! Einum sólarhring seinna sá ég að þetta hefur bara verið birtan! Það eru að vaxa undurfagrir kastaníubrúnir lokkar (ja eða íslenskir sauðalokkar, ég þarf að nota gleraugun til að sjá muninn). Ég hef litað á mér hárið síðan ég var um fjórtán ára gömul, byrjaði á því á svipuðum tíma og ég fékk mér fyrsta tattúið (og já pabbi, enn það eina ;) ) svo ég man varla hvernig minn raunverulegi litur er. Segir mér bara eitt, það er kominn tími á að fara að gera eitthvað við það eða hvort maður ætti kannski að leyfa því að vaxa áður en gráu hárin fara að birtast fyrir alvöru, svona til að sjá hvaða litur kemur úr því. Ég spái í þessu.

Kettirnir eru komnir með kvef, labba um heima síhnerrandi.. vilja svo koma og kúra og ég fæ þetta allt yfir mig... mjög spennandi get ég sagt ykkur, og svoldið blautt.

Ég fór til útlanda :) svo maður tjái sig aðeins um það. Ég skrapp í tæpa viku til Bretlands með henni systur minni og var að hjálpa henni við flutningana en hún er nú alflutt til Íslands. Á milli útréttinga og niðurpakkninga höfðum við tíma til að skreppa í Bingó og ljós og láta bjóða okkur nokkrum sinnum út að borða, allt þetta nauðsynlega. Sem sagt gæðastund hjá okkur systrunum. Ég var að ferðast með Iceland Express í fyrsta skipti, kostirnir: vélarnar næstum tómar svo maður gat valið um sæti, nægilegt fótapláss, enginn sem truflar mann á fluginu (svaf allan tímann). Ég ætla ekki að vera neikvæð og nefna gallana, þeir voru ekkert það margir. Nú hef ég heimsótt þessa þrjá stærstu flugvelli við London og ég verð að segja að Stanstead virðist vera með mestu öryggisgæsluna. Ég slapp samt við líkamsþuklið í fyrsta skipti í lengri tíma, saknaði þess smá... held alltaf í vonina að strákarnir fái að gera þetta vegna manneklu :P

Punktar úr ferðinni:
Ég skil nauðsyn þess að hafa klósett í rútum en jesúss.. lyktin.. Við komum seint um kvöld og stigum upp í rútu. Anna valdi sæti framarlega og fyrir framan það sem virtist vera drukkin útigangskona, ég hafði lent í svona ævintýri áður og ákvað bara að þetta gæti verið skemmtilegt og settist því róleg í gluggasætið. Áður en bíllinn fór af stað var ég farin fitja upp á nefið, lyktin var ekki alveg í lagi þarna.. svitalykt samblanda einhverju öðru kryddi sem ég náði ekki að nafngreina. Svo fer bíllinn af stað og upp gýs þessi hrikaleg pissufýla, ég er handviss um að konan fyrir aftan okkur hafi hreinlega migið á sig og ýti Önnu af stað því ég gat ekki setið þarna lengur. Við færum okkur um sæti en þessi stækja gýs svo alltaf upp með reglulegu millibili. Greyið konan hafði ekkert migið á sig heldur hefur "tankurinn" bara verið fullur og hringrás loftræstingarinnar færði mér þennan ilm með reglulegu millibili þessa tvo tíma og korter sem ferðin til Milton Keynes tekur. Síðast var það æla, núna hland, ég er að spá í að sleppa frekari rútuferðum um Bretland!

Ég prufaði ýmsa hluti í fyrsta skipti,
fór t.d. í "pawn shop", almenningsvagn í Bretlandi (hann var ekki laus við klikkhausa heldur). Smakkaði Cosmopolitan. Ferðaðist með AFAR lítinn farangur (eina litla tösku í handfarangri!), þið sem hafið ferðast með mér mynduð hafa verið svoooo stolt af mér :). Já og svo ýmislegt annað sem fær að liggja milli hluta ;)

Þessi ferð var á margan hátt mjög erfið, þó kannski minnst á líkamlegan máta þó marblettirnir segi annað. Hjúkkuneminn minn tilkynnti að líklega þyrfti að taka fótinn af neðan fyrir hné eftir að hann fékk að skoða og þreifa á einum útstæðum bólgubletti. Ég myndi bara halda mig við Encephallógíuna þína og phallusfræðin ;) ef ég væri þú Garðar minn! Ekkert "af með honum" ! Þakka þó fyrir greininguna, ætla að leita eftir áliti annarra á þessu máli.

En þetta er þá búið og Anna mín er loksins komin heim aftur :)

p.s. það verður the Stand maraþon í kvöld ;) partur tvö, bara svo þú vitir hvað er í vændum :D

Þar til seinna!

mánudagur, mars 17, 2008

Þetta þurfið þið að athuga.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Komin heim!

Svona sólarhringsvökur fara illa með mann. Ég dottaði smá inn á kaffistofu áðan og allt í einu voru Sean Connery og Robert de Niro farnir að reyna við mig, Obama var þarna líka eða hvort hann líka Robert de Niro... ég man það ekki. Allavega, þið sjáið að ég er í engu ástandi til að blogga!

2 tímar í frelsi og litlar loppur!

miðvikudagur, mars 05, 2008

Útferð

Ég hef ákveðið að flýja land og þjóð í nokkra daga!
Tala við ykkur seinna!

föstudagur, febrúar 22, 2008

Eurovision!

Ég er spennt, eru þið spennt?? Ég er mjöög spennt :)

Ok smá ýkjur, en ég er samt spennt!

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

London

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið indælasta ferð og vel heppnuð í flesta staði. Hótelið var gífurlega flott og á sjálfan valentínusardaginn fékk maður hjartalagaðar sápur á koddana :) Ég veit ég á þarna úti nokkrar harðkjarna feminista vinkonur en mér er sama, þetta var sætt! Þær (sápurnar) náðu líka að dempa vonbrigðin þegar ég kíkti út um gluggann og sá að útsýnið mitt náði rétt yfir bílastæðið, 18 hæða hótel og ég var sett á 3 hæð. Ef ég hallaði mér nógu langt út um gluggann þá gat ég séð glitta í Hyde Park til hliðar, ég sætti mig við þetta þar til ég sá útsýni samstarfskonu minnar af 8 hæð og náði út að London Eye og Swiss turninum. En jæja.. ég var nær lobbýinu, mun líklegri til að lifa af stórbruna.

Á meðan samferðafélagar mínir helltu í sig í Leifsstöð átti ég í vandræðum með að halda mér vakandi, var búin að vaka alla nóttina vegna smá erfiðleika sem ég lenti í kvöldinu áður (ætlaði upp í rúm um 22, en það gekk ekki eftir). Ég vildi nýta daginn og því hélt ég mér vakandi eins lengi og ég gat. Rölti aðeins um Hyde Park og yfir að Oxford stræti. Um átta leytið gat ég ekki meir, eftir 30 tíma vöku þurfti ég 12 tíma svefn, hefði þó getað sofið lengur! Vá hvað það var gott, koddarnir þeir bestu sem ég hef legið á og rúmið svo djúsí.... yndislegt alveg. Fara svo í sturtuna og fá heitt handklæði til að þurrka sér á og baðslopp til að umvefja sig! Eru þið að ná þessu?? YNDISLEGT!!

Föstudagurinn fór aðallega í að endurnýja kynni mín við neðarjarðarlestarkerfið. Ég byrjaði þó á því að finna pósthús, Michael átti afmæli og ég hafði keypt íslenskt konfekt handa honum sem þurfti að komast til skila. Eftir að hafa fengið ágætis leiðbeiningar frá móttökustjóranum þá hélt ég af stað í leiðangur. Fljótlega fannst mér hverfið vera orðið ansi kunnuglegt, fór svo inn í eina hverfisverslunina til að kaupa kort, var þetta þá ekki nema sama verslun og við notuðum til að kaupa nauðsynjar eins og vatn og áfengi hérna forðum daga í "Menningarferðinni" góðu. Ég hélt aðeins lengra og var þá komin að Pride of Paddington og Casínóinu góða. Ég vissi ekki að við hefðum verið svo nálægt miðbænum, við tókum alltaf lestir og vorum (að mér fannst) lengi á leiðinni.

Oxford street, Kínahverfið, Soho... Hanna, ég fór inn í búðina þína ;) og tók meira að segja myndir fyrir þig af henni til minningar! Hætti mér ekki mjög langt frá aðalæðinni en þetta tók langan tíma og ég varð að lokum að fórna Breska safninu fyrir röltið, ekkert gaman að þurfa að flýta sér í gegnum söfn. Picassó sýningin okkar Jesúbarnsins á spíttinu kenndi mér það ;) Fer bara næst ;)

Ég kíkti á London Eye og Big Ben sem voru uppljómuð í myrkrinu, rölti að Buckingham höll. Var ein á ferli, klukkan níu eða tíu á föstudagskvöldi og engir verðir sjáanlegir. Komst svo heil heim á hótel þar sem ég dundaði mér við að flakka á milli sjónvarpsstöðva og undirbúa næsta dag langt fram á nótt.

Á laugardeginum kíkti Næturvaktin plús maki á Tower of London, alvöru Beefeater fylgdi okkur um svæðið. Þetta var hin skemmtilegasta upplifun, hann var stórskemmtilegur og húmorinn að drepa hann.. Ég sé núna eftir að hafa ekki tekið betur eftir nafninu hans, því það ég hefði örugglega flett honum upp og addað honum á feisbúkk.. hann sagðist vera með síðu!! Það var líka gaman að fá að sjá krúnudjásnin, reyndar var "the Star of Africa" reyndar ekki eins stór og ég hafði ímyndað mér (en hvenær eru hlutirnir nokkurn tímann þannig ;) )

Eftir allt labbið var haldið á Oxford stræti aftur, fundum þar krá á einhverri hliðargötu og fengum okkur í gogginn. Um kvöldið var svo árshátíðin góða, stórglæsileg eins og allt annað í þessari ferð. Skemmtilegir borðfélagar. Hvítvínið ljómandi gott, skemmtiatriðin til fyrirmyndar. Björgvin Franz sá um að stjórna þessum herlegheitum. Eftir að dagskránni lauk, hófst smá ball og fólk þaut annarsvegar út á dansgólfið eða niður í bæ til að leita af meira fjöri. Ég var auðvitað prúð stelpa, fór upp á herbergi á miðnætti. Laumaði mér hinsvegar niður aftur, vel dúðuð og fór í smá göngutúr um hverfið. Andaði að mér Lundúnarloftinu (menguninni?) og leið ótrúlega vel á eftir..

Fólkið sem mætti í rútuna kl 9, var ekki upp á marga fiska. Ekki heldur þeir sem mættu tuttugu mínútum seinna... á miðri leið var svo gerð dauðaleit af lausum poka þar sem einn ferðafélaginn var kominn á ystu nöf með að .. já :) þið vitið...

En ekkert slúður og engan skandal... sorry :) kannski næst!

Myndirnar eru á Facebook...