Aldan

þriðjudagur, desember 11, 2007

Draugagangur

Ég hef orðið var við mikin draugagang heima undanfarið. Síðasta atvikið átti sér stað fyrir nokkrum dögum þegar ég sat inní stofu og var að lesa bók, allt í einu kveikja græjurnar á sér. Fyrst er skipt nokkrum sinnum um stöð, en svo fer geislaspilarinn af af stað. Ég byrjaði að ýta á power takkann á fjarstýringunni, en það virkaði ekki. Þá ýtti ég á power takkann á græjunum sjálfum en það virkaði ekki heldur. Að endingu tók ég græjurnar úr sambandi. Þið hafið heyrt mig segja sögur af eldavélinni, ísskápnum og þurrkaranum. Öll hafa þessi tæki bilað á mjög undarlegan hátt.

Mamma var alveg viss um að rafmagnið hér í húsinu væri eitthvað skrítið og fékk því mann til að koma og mæla það. Það reyndist vera í lagi, en maðurinn sagði okkur sögu af kirkju sem var hér nálægt, ég ákvað því að fara á Þjóðarbókhlöðuna og lesa mér til um þetta.

Ég kemst fljótlega að því að húsið mitt er byggt á gömlum grafreit, sem tilheyrði þessari kirkju. Það kom ýmislegt í ljós þegar verið var að grafa grunninn, m.a. gröf með tveimur beinagrindum, líklega karli og konu. Það sem var merkilegt við það var að í þessari gröf átti að vera gömul kona. Hún fannst hvergi. Annað sem var merkilegt við þessa gröf er að líkin snéru öfugt miðað við öll hin líkin í garðinum. Verktakarnir fengu það verkefni að flytja garðinn og voru öll beinin, að því er talið var, grafin í einni gröf inní Fossvogi.
Einhverjir vildu meina að það hefði ekki verið rétt staðið af þessu og að grunnurinn hefði ekki verið hreinsaður almennilega. Verktakinn fékk bara eina greiðslu og því hounm í hag að klára verið með sem minnstum tilkostnaði.

Kirkjan sem stóð hér stóð rétt innan við það sem síðar varð Hringbraut, þegar Hringbrautin náði utan um Reykjavík, u.þ.b. þar sem hús Ríkislögreglustjórans er í dag. Þá var ekki landfylling hér norður af og kirkjan stóð nálægt lágri klettabrún. Þá voru tvær aðrar kirkjur í Reykjavík, Dómkirkjan og kirkja úti á nesi.

Ógæfufólk og rónar bjuggu í nágrenni við þessa kirkju. Sagan segir að þegar hafi farið að vetra eitt árið hafi þeir gert sig heimankomna í kirkjunni. Mjög kalt hafði verið og ógæfufólkið sem bjó í lélegum húsum og hreisum sá að betra var að búa í hlýrri kirkjunni en kulda og trekk. Prestur safnaðarins hreyfði auðvitað mótmælum, en bækur segja að sýslumaðurinn hafi á enda ákveðið að það væri betra að leyfa fólkinu að vera þarna en að það myndi deyja úr kulda.

Ógæfufólkið gekk ekki vel um kirkjuna og bar litla virðingu fyrir hinum helga stað. Prestinum var ofboðið og fór svo að hann fór að kirkjunni eitt kvöldið og afhelgaði hana. Sama kvöld skellur á mjög vont verður. Sjórinn barði klettana fyrir neðan kirkjuna eins og hann ætti lífð að leysa. Öðru hverju gekk sjór á land og jafnvel yfir kirkjuna. Húsin í bænum láta illa, enda var þetta líklega versta veður í manna minnum. Það hrikti í kirkjunni og marrið og brakið vekur óhug hjá ógæfufólkinu, sem hafði setið daglangt að drykkju. Nú var ekki lengur hægt að ganga á milli bæja á suðvesturlandinu. Það var eins og veðurguðirnir væru að ganga af göflunum. Kirkjan byrjar að nötra og skjálfa, það er líkt og smá jarðskjálftar séu að hrista hana stöðugt. Bjöllurnar byrja að hringja og ógæfufólkinu finnst eins og það heyri óp ofan úr turni krikjunnar. Hvínandi vindurinn er ekki til að róa fólkið. Öldurnar berja enn fastar á klettunum.
Skyndilega kemur stór alda, sem tekur með sér kirkjuna, og alla hennar gesti, í einni svipan. Eftir stóð grunnurinn einn, ekki svo mikið sem eina flís var að finna af kirkjunni.

Fólk á nálægum bæ segir að það hafi heyrt kirkjuklukkurnar deyja út eftir því sem kirkjan fjarlægðist land. Aldrei bar nokkurn hlut úr kirkjunni aftur að landi og ekki sást neitt frekar af ógæfufólkinu. Í sama mund og þetta gerist fer veðrið að ganga niður. Fljótlega er óveðrið orðið minning ein.

Þetta til viðbótar við þá staðreynd að húsið mitt er á grafreit þar sem grafin voru óþekkt lík fær mig til að hugsa hvort þetta geti verið skýringin á bakvið þessi rafmagnsvandræði. Það má líka minnast á það að bíllinn minn bilaði, sem og fleiri bílar í húsinu. Ég man eftir einum degi þar sem það voru 4 bilaði bílar niðrí bílageymslu, þar á meðal nýr Volvo!

Ef fólk efast um þessa sögu mína bendi ég því á að fletta upp í þjóðsögum Jóns Árnasonar, þar er þessi saga í mun meiri smáatriðum.

6 Comments:

  • Eg skil hvad tu ert ad gera. Kem samt! Losnar ekki svo audveldlega fra okkur! Kv. Anna Draugabani

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:17 f.h.  

  • Þú skalt biðja fyrir "draugunum" og senda þau í ljósið svo þau láti ykkur nú vera!!! ;)

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:02 e.h.  

  • Mér finnst þetta nú bara nokkuð áhugaverð saga skal ég segja þér! Kannski er komin skýring á drauginum mínum á Skúlagötunni ;)

    Anyway hafðu það gott skvísa :)

    kv. Álfrún

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:15 f.h.  

  • Þarna setti að mér hroll í annars heitu herbergi....
    Mögnuð saga, endilega komdu með fleiri svona skemmtilegar færslur :)
    kv Arna

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:58 e.h.  

  • Alveg magnað þetta mál! En ertu viss um að það sé ekki bara kuklið í þér sem hafi vakið þessa drauga úr dvala;)
    Kv. Nína

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:15 e.h.  

  • úúú...mar fær bara gæsahúð !!

    Sólveig.

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:20 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home