Aldan

þriðjudagur, mars 18, 2008

Hvað er af mér að frétta..

Nú, við getum byrjað á þeirri staðreynd að ég hélt um daginn að það væri að vaxa heill lokkur af gráum hárum á höfði mínu! Ég var miður mín og vældi eitthvað í Netverjanum út af þessu, hann var eins vingjarnlegur og honum einum er lagið og sagði uppörvandi að minn "tími" væri kominn! Einum sólarhring seinna sá ég að þetta hefur bara verið birtan! Það eru að vaxa undurfagrir kastaníubrúnir lokkar (ja eða íslenskir sauðalokkar, ég þarf að nota gleraugun til að sjá muninn). Ég hef litað á mér hárið síðan ég var um fjórtán ára gömul, byrjaði á því á svipuðum tíma og ég fékk mér fyrsta tattúið (og já pabbi, enn það eina ;) ) svo ég man varla hvernig minn raunverulegi litur er. Segir mér bara eitt, það er kominn tími á að fara að gera eitthvað við það eða hvort maður ætti kannski að leyfa því að vaxa áður en gráu hárin fara að birtast fyrir alvöru, svona til að sjá hvaða litur kemur úr því. Ég spái í þessu.

Kettirnir eru komnir með kvef, labba um heima síhnerrandi.. vilja svo koma og kúra og ég fæ þetta allt yfir mig... mjög spennandi get ég sagt ykkur, og svoldið blautt.

Ég fór til útlanda :) svo maður tjái sig aðeins um það. Ég skrapp í tæpa viku til Bretlands með henni systur minni og var að hjálpa henni við flutningana en hún er nú alflutt til Íslands. Á milli útréttinga og niðurpakkninga höfðum við tíma til að skreppa í Bingó og ljós og láta bjóða okkur nokkrum sinnum út að borða, allt þetta nauðsynlega. Sem sagt gæðastund hjá okkur systrunum. Ég var að ferðast með Iceland Express í fyrsta skipti, kostirnir: vélarnar næstum tómar svo maður gat valið um sæti, nægilegt fótapláss, enginn sem truflar mann á fluginu (svaf allan tímann). Ég ætla ekki að vera neikvæð og nefna gallana, þeir voru ekkert það margir. Nú hef ég heimsótt þessa þrjá stærstu flugvelli við London og ég verð að segja að Stanstead virðist vera með mestu öryggisgæsluna. Ég slapp samt við líkamsþuklið í fyrsta skipti í lengri tíma, saknaði þess smá... held alltaf í vonina að strákarnir fái að gera þetta vegna manneklu :P

Punktar úr ferðinni:
Ég skil nauðsyn þess að hafa klósett í rútum en jesúss.. lyktin.. Við komum seint um kvöld og stigum upp í rútu. Anna valdi sæti framarlega og fyrir framan það sem virtist vera drukkin útigangskona, ég hafði lent í svona ævintýri áður og ákvað bara að þetta gæti verið skemmtilegt og settist því róleg í gluggasætið. Áður en bíllinn fór af stað var ég farin fitja upp á nefið, lyktin var ekki alveg í lagi þarna.. svitalykt samblanda einhverju öðru kryddi sem ég náði ekki að nafngreina. Svo fer bíllinn af stað og upp gýs þessi hrikaleg pissufýla, ég er handviss um að konan fyrir aftan okkur hafi hreinlega migið á sig og ýti Önnu af stað því ég gat ekki setið þarna lengur. Við færum okkur um sæti en þessi stækja gýs svo alltaf upp með reglulegu millibili. Greyið konan hafði ekkert migið á sig heldur hefur "tankurinn" bara verið fullur og hringrás loftræstingarinnar færði mér þennan ilm með reglulegu millibili þessa tvo tíma og korter sem ferðin til Milton Keynes tekur. Síðast var það æla, núna hland, ég er að spá í að sleppa frekari rútuferðum um Bretland!

Ég prufaði ýmsa hluti í fyrsta skipti,
fór t.d. í "pawn shop", almenningsvagn í Bretlandi (hann var ekki laus við klikkhausa heldur). Smakkaði Cosmopolitan. Ferðaðist með AFAR lítinn farangur (eina litla tösku í handfarangri!), þið sem hafið ferðast með mér mynduð hafa verið svoooo stolt af mér :). Já og svo ýmislegt annað sem fær að liggja milli hluta ;)

Þessi ferð var á margan hátt mjög erfið, þó kannski minnst á líkamlegan máta þó marblettirnir segi annað. Hjúkkuneminn minn tilkynnti að líklega þyrfti að taka fótinn af neðan fyrir hné eftir að hann fékk að skoða og þreifa á einum útstæðum bólgubletti. Ég myndi bara halda mig við Encephallógíuna þína og phallusfræðin ;) ef ég væri þú Garðar minn! Ekkert "af með honum" ! Þakka þó fyrir greininguna, ætla að leita eftir áliti annarra á þessu máli.

En þetta er þá búið og Anna mín er loksins komin heim aftur :)

p.s. það verður the Stand maraþon í kvöld ;) partur tvö, bara svo þú vitir hvað er í vændum :D

Þar til seinna!

1 Comments:

  • Það hljómar óneitanlega ekki vel að manneskja sé farin að dreyma það og halda stíft í þá von að öryggisvörður á Stanstead þukli sig hátt og látt. Það er bara eitthvað skrýtið við það að mínu mati. Enn alla vega gaman að lesa meira um ævintýri Öldu og hinna "sidekick"-anna hennar.

    kv. Valdi

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:44 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home