Aldan

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Það er svoldið merkilegt með þessa viðgerð á bílnum, ég lét laga flautuna og festa spegilinn aftur á eftir smá árekstur við bílaþvottavél svo ég fengi skoðun, en svo virðist sem gírkassinn sé kominn í lagi. Hann er búinn að vera óþekkur núna í lengri tíma og ég hef þurft að gíra hann upp í miklum kulda (hann er sjálfskiptur) en núna malar þessi elska og hrekkur alltaf strax í gírinn.... ef ég læt laga útvarpið ætli pústið fari þá að haga sér? Pæling. Fegin er ég samt, að spara þarna tugi í kostnað vegna viðgerðar, það verður samt að viðurkennast að þetta er samt svoldið spes...

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Lok lok og læs

Nokkur mál á dagskrá...

Lokað blogg
Ég ákvað að loka blogginu meðan ég væri að taka ákvörðun um framhaldið... ég sé á teljaranum að ég er að fá ótal heimsóknir hérna inn en ég fæ fá sem engin komment, auðvitað eru þarna nokkrir sem standa sig, en flestir hinna ekki.. ég nennti ekki að blogga og sást það á fáum færslum.. ég hef líka ekkert til að blogga um.. en það virtist ekki hafa áhrif á vinsældirnar :)
Eftir að ég lokaði fékk ég fjölmörg komment og beiðnir um að ég myndi opna þetta aftur eða allavega að bjóða þeim aðilum þá aðgang að blogginu. Ég er ekki frá því að aukinn fjöldi símtala og msn samtala tengist lokun bloggsins á einhvern hátt. En já... mér leiðist lokunin sjálf afskaplega, ég nota linkana of oft til að ég nenni að standa í því að vera að logga mig inn með passa í hvert skipti sem ég þarf að nota eitthvað af þeim, svo ég mun nú opna bloggið núna aftur og hef það ólæst fyrst um sinn meðan ég held áfram að bulla um ekkert :)

Bloggarar
Blogghatarinn mikli er kominn á stjá... mjög skemmtilegt að lesa þetta...
Flugmaðurinn hefur ákveðið að hætta, ég veit ekki hvort við getum spornað við hvarfi hans úr netheimum, en ég mæli með því að fólk reyni það með kommentum :)
Netverjinn er að reyna að hökta í gang aftur, við mikinn fögnuð aðdáanda, þó einna helst hinna mörgu persónuleika Hannfríðar Lilju eins og Nína benti svo skemmtilega á, sem hafa saknað hans... vonum að hann hrökkvi almennilega í gang og bruni af stað...

Heimilistæki og tengd málefni
Blogghatarinn mikli talaði fyrst um þrennu og svo um fernu í sambandi við ólukku á heimilinu. Ég, hinsvegar fékk fimmu og nú þegar er þurrkarinn, þvottavélin, bíllinn, eldavélin og svo ísskápurinn búinn að klikka... Ótrúlegt alveg, þurrkaranum komum við í lag sjálf, fengum nýja eldavél í staðinn fyrir gömlu, þvottavélin fékk nýjan takka upp á 2 þús, bíllinn þurfti nýja flautu og spegil og heildarkostnaður viðgerðar var um 15 þús kr, en svo þurftum við að fjárfesta í nýjum ísskáp upp á 70 þús takk fyrir góðan daginn. Allt í sama mánuðinum. Ég vona að það sé nóg komið í bili, ég vona líka að þetta sé ekki dulið fetish á nýjum heimilistækjum, hef ekki efni á fleirum í bili, ekki svona rétt fyrir jólin.

Strætósskýlið á Vesturlandsveginum!
Hvaða fokkings strætó skýli hugsið þið? Nákvæmlega.. þarna er ekkert fokkings strætó skýli þar eins og ég komst að um daginn. Ég valdi mér skemmtilegan dag til að taka strætó í vinnuna... fínt veður að heiman og upp í vinnu, um morguninn var svo komin grenjandi rigning og rok. Strætóskýlið er þannig staðsett að ég þurfti að labba yfir einhverja götu og klífa svo hæð í þessu fjandans veðri, heppni að ég rann ekki á rassgatinu niður brekkuna þegar ég missteig mig á leiðinni upp, frekar sleipt þarna enda bara gras og drulla. Svo komst ég upp á veginn þar sem skiltið er, þá stend ég bara á miðjum Vesturlandsveginum takk fyrir. Í mígandi rigningu og átta umferðin eins og hún er nú skemmtileg, hefst handa við að ausa yfir mig úr pollunum á götunni. Ég veit ekki hvort ég var þakklát fyrir að umferðin var ekki minni, því þá safnaðist minna vatn í pollana sem svo gusaði yfir mig þar sem ég gat mig hvergi hreyft en ég stóð allavega þarna og fékk stöðugar gusur yfir mig. Ef ég hefði hreyft mig, þá stóð valið um að lenda fyrir bílum eða standa í miðri brekkunni þar sem strætó myndi ekki sjá mig, í þeirri hættu á að missa fótana og renna niður á aðkomandi umferð í götunni fyrir neðan. Þetta voru ákaflega blautar 10 mínútur plús sem ég beið þarna, ég sneri mér undan í verstu gusunum og smjattaði á tjörunni. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hefur hlakkað í vörubílsstjórunum þegar þeir keyrðu framhjá og reyndu að fara sem næst mér. Þegar strætó kom loksins var ég svoleiðis rennblaut að hálfur vagninn hló að mér þegar ég lak inn í vagninn. Ég spurði bílstjórann hvort það væri virkilega ekki hægt að finna betri staðsetningu fyrir þetta, hann kvað svo ekki vera. Þegar ég kom heim þurfti ég líka að vinda nærbuxurnar.. það var skemmtilegt. Næst labba ég aðeins lengra og held mér þurri.

Ég held þetta sé komið gott í bili... ég ætla að snúa mér aftur að harðfiskinum... góðar stundir :)

laugardagur, nóvember 10, 2007

Þann 22. október síðastliðinn lést Robin hennar Önnu eftir um eins og hálfs árs baráttu við krabbamein. Þessi yndislegi og já, bara hreint út sagt frábæri maður skilur eftir sig stórt spor í hjartanu. Þó svo að við höfðum ekki hist oft, þá vissi ég hvaða mann hann hafði að geyma, í yfir 10 ár hafði hann verið partur af lífi systur minnar. Þessi maður hafði stóran persónuleika sem og mikinn húmor og hver sem var svo heppinn að rekast á hann á lífsleiðinni man eftir honum því hann var ein af þessum persónum sem erfitt er að gleyma.

Við mamma flugum út strax daginn eftir, þær í vinnunni voru svo yndislegar og redduðu vöktunum mínum svo ég gæti verið úti sem lengst. Tíminn úti leið hratt, pappírsvinna og undirbúningur fyrir jarðarförin, við hentumst hingað og þangað, það var í nógu að snúast. Jarðaförin var viku eftir andlátið, Robin var ekki trúaður og hafði beðið um að athöfnin myndi vera í umsjón húmanista. Við vorum sótt á eðalvögnum heim til Michael, föður Robins og þaðan var keyrt rólega í átt að líkbrennslunni... hljómar illa en Crematorium, ja .. það er ekki hægt að orða þetta mikið öðruvísi. Húsið er staðsett í miðjum garði, umvafið trjám og öðrum plöntum, rosalega fallegt. Húmanistinn talaði um Robin, hvaða karakter hann bara að geyma.. í raun var verið að fagna lífi hans, ekki syrgja hann sjálfan. Frændi hans sagði einnig nokkur orð og svo söng Svenni bróðir Önnu lagið When I think of Angels eftir K.K.

Dagarnir eftir athöfnina liðu hratt. Við versluðum smá. Ég fékk að upplifa Halloween í fyrsta skipti, svona í alvöru og svo fórum við í Bingó... ég hef aldrei upplifað annað eins, þetta var ekki fyrir neina venjulega einstaklinga... Tölurnar voru lesnar upp svo hratt að maður hafði ekki við að setja stimpilinn í bókina. Speedy Gonzales greinilega fyrirmyndin, ótrúlegt hvernig allt þetta fólk, flestir komnir vel yfir sextugt nær að fylgjast með, ég deplaði auga og missti af þremur tölum og svo var leikurinn búinn og einhver kominn með Bingó... úff.. hver segir svo að Bingó geti ekki verið spennandi. Vinningarnir voru líka ekki af verri endanum, ein og hálf milla í eitt skiptið og við vorum að spila frítt!

Það var sorglegt að kveðja mæðgurnar en ég hugga mig við það að Anna ætlar að koma í heimsókn um jólin og tekur Michael með sér...

Þar til seinna :)