Aldan

miðvikudagur, maí 30, 2007

Stjörnuspá dagsins

"Heimurinn þarfnast skemmtilegheita þinna. "

Nei, vildi bara deila þessu með ykkur!

Where do you go when you are lonely?

Well I go to the Youtube site and watch funny Cat videos!

Maybe I escape to the movies more often than I should!

Miðvikudagsmorgun, sumarfrísdagur númer eitt.
Á dagsskrá:
Ekki neitt :)

Er það ekki þannig sem hlutirnir eiga að vera. Reyndar var á planinu hittingur Álaral en vegna svefnþjálfunar frumburðar millimanneskjunnar þá var því frestað. Með millimanneskjunni meina ég bara Ar-ið í Álaral :) ekkert annað. Reyndar var ég hálf fegin enda er dagskráin búin að vera frekar þétt undanfarna daga. Netverjinn og Flugmaðurinn buðu okkur Hannfríði í mat á laugardagskvöldið og við áttum með þeim skemmtilega kvöldsstund. Á sunnudagskvöldið var svo saumaklúbbur hjá Herfunum og mánudagskvöldinu var eytt hjá Söru og Ellen en sú fyrrnefnda var rétt óflogin til S-Afríku í mánuð. Það er eins og allir séu að yfirgefa landið eða búnir að því, Garðar, Guðrún og Nína eru í Frakklandi sem stendur, allavega voru þau það í gær en ég fékk afar skemmtileg sms og myndir sem sýndu Nínu í "velþekktri"* stellingu með ónefndum barþjóni. Reyndar fékk ég svo líka sms frá Jésúbarninu á Ítalíu en það var ekki eins merkilegt**. Ellen og Gunnhildur fara til Grikklands á föstudag, Arna og Hanna fara til Danaveldis seinna í mánuðinum og svo Flugmaðurinn til Bretlands. Ég, hinsvegar, verð hér heima. Planið í sumarfríinu er eftirfarandi:
Bókasafnsleiðangur,
Buxnakaup,
Ikeaheimsókn,
tiltekt í skápunum.

Já, ekki er þetta merkilegt, við sjáum hvað bíður handan við hornið. Stjörnuspáin mín segir að ég eigi eftir að vera í góðum öndum í dag ("You should be in good spirits all day today"). Kannski er verið að tala vín-anda, maður getur bara vonað það besta en það er víst enginn Garðar á landinu til að taka með mér eitt gott Klefadjamm á virkum degi. Síðasta vaktin er að líða áfram, hægt og rólega. Ristað brauð með banana og kakó gerðu sólarupprásina enn notalegri, það eru litlu hlutirnir sem gera lífið skemmtilegt. Annars held ég að Ávaxtakarfan haldi að það séu eintómir apar að vinna hérna, það eru örugglega fimmtíu bananar inn á eldhúsborði. Ég ætlaði líka eitthvað að tuða yfir fjölbreytingarleysinu hjá þeim þegar ég tók eftir að önnur skál innihélt appelsínur, epli og Papaya... hver borðar Papaya? Er þetta annars Papaya? Hvernig borðar maður Papaya? Hvernig veit maður að þetta sé Papaya en ekki einhver annar forboðinn ávöxtur sem gæti innihaldið einhver ógeðsleg skordýr sem eru búin að verpa eggjum í kjötið og svo borðar maður kjötið og eggin klekjast og skordýrin skríða svo út úr lítilli bólu á kinninni þegar hún springur! Já nei.. ég var bara að velta þessu fyrir mér.

Update: við Ásta ákváðum að prófa ávöxtinn, auðvitað lét ég Ástu um erfiða verkið en hún var örugglega í 5 mínútur að reyna að skera hann niður. Engin skordýr! Við ákváðum að vera einstaklega hugrakkar og smakka þetta.. viðbjóður, ógeðslega súrt og vont :OS Við vitum enn ekki hvort þetta var Papaya eða eitthvað annað, en við munum pottþétt ekki fjárfesta í þessu næst þegar við förum í ávaxtadeildina í Hagkaup! Við erum komnar aftur yfir í bananana.

*já þetta var tilvísun í ákveðinn pistil um Smáralindarbæklinginn ef þið tókuð ekki eftir því.
** þetta var grín Auður mín, slakaðu á, fáðu þér ost og skoðaðu Ikea bæklinginn aftur í þúsundasta skiptið.

föstudagur, maí 25, 2007

Hiti

Allar konur upplifa tímabil í sínu lífi þegar ákveðnum þörfum verður að fullnægja. Þessi tímabil eru mislöng og misjafnt hversu djúpt er sokkið. Það vita allar konur hvað ég er að tala um. Hendurnar verða þvalar, hjartslátturinn aðeins örari en vanalega, nasirnar þenjast út, sjáaldur augnanna stækka og ennið verður glansandi. Eina lækningin er að fullnægja þörfinni, það er ekkert annað til í stöðunni.

Núna í kvöld finn ég að hitinn er að koma yfir mig...

Karlmenn eiga það jafnvel til að líkja þessum sótthita við æði!
Já, ég er að tala um kaupæði! Ég veit ekki hvaða gen sér um þessa áráttu kvenna til t.d. skó- og töskukaupa en ég er viss um að hann Kári eigi nú eftir að finna það og einangra, jafnvel útrýma ef hann fær tækifæri til.

Í kvöld beinist athyglin að bókum, asnaðist til að ramba inn á Amazon (ég mun aldrei viðurkenna það fyrir almenning að það var af ásettu ráði!). Ég verð að segja það, að ég hef einstaklega gaman af For Dummies bókunum, kannski er ástæðan afar augljós, kannski ekki. Þegar ég var komin með tíu bækur á listann minn og var eitthvað að tjá mig um það við vinkonu mína og Jesúbarnið hana Auði, þá segir hún við mig: þú getur náð í þessar bækur á netinu. Hvar er fjörið við það? Ég er gamaldags, ég elska bækur. Ég elska að fletta bókum, þreifa á síðunum, finna lyktina (ég er ekki að tala um bókasafnsbækur.. maður veit aldrei hvar þær hafa verið :oS ) Það er ekkert skemmtilegt að scrolla niður síðu eftir síðu. Ekki getur maður legið í baði með fartölvuna án þess að eiga í hættu að eitthvað skemmist, eða ef maður er með lélega rafhlöðu - í beinni lífshættu. Maður getur heldur ekki setið í rólegheitum upp í rúmi nema eiga í hættu að það kvikni í manni vegna gallaðrar rafhlöðu. Neinei, frekar vil ég eiga bækurnar á pappír heldur en tölvutæku formi, hverjum er ekki sama um nokkra skóga eða tíu tonna kassa í flutningum - upp og niður af fjórðu hæð með bilaða lyftu og hverjum er ekki sama um eldhættuna sem skapast af öllu pappírsflóðinu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina! Bækur án blaða eru eins og tannburstar án hára eða harðfiskur án trópís! Ég kýs bækur! Bækur, já takk :)

p.s. ég ætti kannski að íhuga að fjárfesta í "Blogging for Dummies" ;)

fimmtudagur, maí 24, 2007

Pæling

Tónlist

Takturinn eða textinn?


Einhver skoðun á þessu...?

sunnudagur, maí 20, 2007

Þróun dansins!

Þetta er bara schnilld!

En að öðru, þegar ég sé flöktandi flóðljósin minnir það mig á Josh Groban tónleikana. Sá sem sá um að varpa mynd af honum á breiðtjaldið var greinilega á fimmta glasi. Ekki nóg með að það tók um það bil mínútu að finna gaurinn ef hann ákvað að færa sig, þá var myndavélinni alltaf beint of hátt, of lágt eða of langt til hliðanna. Þetta var mjög spes, en á sama tíma hafði þetta ákveðið skemmtanagildi. Þegar hann gekk upp tröppurnar á sviðinu, fengum við einstaklega fagurt skot af rassinum á honum, hefði nú ekkert á móti að fá að klípa í þær kinnar ;) Skemmtilegast var þó þegar Josh og Fiðluleikarinn voru bæði að leika á sína strengi. Þau stóðu sitthvoru megin á sviðinu, aumingja myndatökumaðurinn átti í smá dilemmu í byrjun að ákveða hvorn aðilann hann ætti að varpa upp á skjáinn, en um leið og hann tók ákvörðun þá leitaði myndavélin að fyrri aðilanum, þetta var eins og að fylgjast með flóðvörpum leita að strokuföngum.. leitaleitaleitaleita (nei sást í hárlufsu og auga), aðeins til baka, FUNDINN! Svo til baka að hinum aðilanum aftur, leitaleitaleitaleita FUNDINN! Mjög skemmtilegt allt saman.

Nei, annars veit ég ekkert afhverju ég er að tjá mig um þetta... :) Þarf að vera tilgangur með ÖLLU??

Veriði sæl að sinni

laugardagur, maí 19, 2007

Hvorki meira né minna en 113 innlit í gær, 50 heimsóknir.. maður getur verið sáttur við það. Takk fyrir hlýlegar kveðjur :) Ég bætti annars við "ennþá fleiri hlekkjum" og "barnahlekkjum" á síðuna hér til hægri.. ef þið tókuð ekki eftir því. Mæli með að þið skoðið síðuna með stjörnuspánni, hún getur verið óhugnalega nákvæm stundum, ég er ekki að grínast með það. Jesúbarnið Auður getur staðfest það enda lítur hún alltaf í kringum sig þegar hún skoðar þetta, viss um að einhver sé að fylgjast með hennar daglegu lífi því þetta passar allt svo vel við muhahaha.... ef þú bara vissir kella góð! Annars mæli ég með því að Snúrurnar kíki inn á Snúrusíðuna til að sjá Albert hennar Veigu í slagsmálum við Símon minn... ég er ekki frá því að Albert hafi haft vinninginn! Annars var ég að hugsa um að koma með nýjung hérna á bloggið, pæling dagsins!

Pæling Dagsins
Að hlæja upp í "opið geðið" á einhverjum! Opið geð? Hvernig getur geð verið opið?
Getur einhver útskýrt þetta orðatiltæki fyrir mér? Ef ekki, takið þetta heim með ykkur og geymið þetta...

Auf wiedersehen

föstudagur, maí 18, 2007

Bloggaðu nú krúttið mitt!

Hvernig getur maður annað en bloggað eftir svona sæt tilmæli. Það er svo sem kominn tími á smá blogg, langt síðan síðast.

Það hefur svo sem ekkert merkilegt á mína daga drifið, lífið heldur áfram sinn vanagang. Verkamennirnir eru enn heima en þeir hafa ekkert skandalast síðan þeir tóku niður stillansana, einu samskiptin mín við þá er þegar ég keyri upp brekkuna heima, þeir sitja allir í gámnum sínum og stara á mig í allri minni morgunfegurð um leið og ég renni í hlað. Ég virðist starta vinnudeginum hjá þeim, því þeir gera ekki handtak fyrr en ég er mætt á svæðið. Sígarettugaurinn bíður líka alltaf eftir mér úti til þess eins að geta boðið mér góðan dag þegar ég geng framhjá honum og inn blokkina. Það er hlýlegt að enda daginn/nóttina með því að fá svona móttökunefnd, það væri þó skemmtilegra ef einhver þeirra kæmi með manni í rúmið, en ojæja...

Stundum mæti ég í ræktina, nógu oft til að finnast ég dugleg en ekki nógu oft til að standast kröfur ákveðins einstaklings. En ég er eiginlega hætt að þora að mæta þessa dagana, það virðist alltaf einhver slasast þegar ég er nálægt. Tvo daga í röð voru alvarleg slys á hlaupabrettunum, við getum þó kennt einstaklingunum sjálfum um í þetta skiptið en ekki brettunum. Meðan ég man, þau virka ágætlega sem stendur, rafmagnsleysið er úr sögunni. En já... slysin... í fyrra skiptið var ung stúlka að þykjast vera eitthvað meira en hún í rauninni var, hoppaði af og á hlaupabrettið og skoppaði um eins og hún ætti lífið að leysa. Hefur örugglega verið nýbúin að horfa á Rocky, ég er ekki frá því að nokkur boxarafílingur hafi verið í henni. Það fór ekki betur en svo að hún missti jafnvægið, datt niður á hlaupabrettið, skaust aftur upp í loft og lenti svo aftur niður á hlaupabrettinu og rann svo með því út í vegg! Þar sat hún á meðan hún týndi upp brotið stoltið og fékk u.þ.b. tuttugu af sínum vinkonum til að koma og vorkenna sér, náði sér í klakapoka og fór aftur á hlaupabrettið en gekk þá í rólegheitum meðan vinkonurnar kláruðu sínar æfingar. Hin var starfsmaður sem steig á hlaupabretti í gangi, en hún átti það svo sem líka skilið, var hálf tíkarleg eitthvað. Karma segi ég!
Annars verður maður að passa það sem maður horfir á þegar maður notar þessi blessuðu bretti, ég mætti eitt kvöldið og Will og Grace var á, við vorum 5 eða 6 sem hlóum svo dátt að það lá við slysum. Ekki getur maður heldur horft á þessar dramamyndir sem eru stundum á daginn, tárin eiga það til að renna niður og maður getur fengið straum af þessu blessaða handriði. En nóg um ræktina...

Eurovisionkvöldið var meiriháttar, byrjaði með smá paniki vegna afboðunar bílstjóranna, málinu var reddað, ein frænka úr Hafnarfirði stökk til enda alveg út í hróa að fara að taka strætó á svona degi. Mætti í Eurovision teiti á Melnum á slaginu 19, mér til undrunar var ég þó fyrst á svæðið, næsta kom ekki fyrr en hálftíma seinna.. ég hélt einmitt að markmið svona Eurovision teita væri að horfa á keppnina sjálfa. En hvað um það, ég var í góðum félagsskap, fékk besta sætið og snakkskálin var mín. Síðan bættist nú eitthvað í gleðskapinn og ég verð nú að segja að þetta var ansi skemmtilegt í lokin, fólk var svolítið æst og ég er ekki frá því að ég sé enn að ná heyrninni aftur eftir öll ópin. Eurosafndiskur á fóninn, dreipt á þurrum Martini og fylgst með tölum úr kosningunni á meðan deilt var um hvort víbradorinn væri kraftmeiri, H. eða Ö.! Jájá, ljómandi skemmtilegt allt saman ;) Þurfti því miður að yfirgefa veisluna enda beið mín önnur handan við hornið, já eða nokkur. Mínar ástkæru E. og S. voru að halda upp á afmælið sitt og gerðu það með glæsibrag á K. Roma, þar voru samankomin hin ýmsu þjóðarbrot sem merkilegt nokk voru líka að fylgjast með kosningatölunum. Ég hafði tekið með mér hjálpartækjaumræðuna og myndirnar sem höfðu verið teknar úr fyrri partíinu vöktu mikla lukku. Við sátum og spjölluðum fram undir morgun, þýddum allan merkimiðann á Jagermeisterflöskunni minni auk þess sem við ræddum um bruggun bjórs á meðan stjórnin hélt og féll. Ákveðið var svo að endurtaka leikinn mjög fljótlega.

Himinguðunum virtust vera vel við mig þennan dag en þegar ég gekk út úr húsi til að fara og kjósa (var greinilega að fara að kjósa rétt!), þá beið mín svaka glaðningur í póstkassanum, einn frændi minn hafði séð aumkur á mér og hafði stungið þar, ekki einum heldur tveimur miðum á Josh Groban tónleikana. Skemmtilega við þetta var að þeir (tónleikarnir) voru á eina fríkvöldinu mínu í vikunni. Ég hafði sjálf ekki tímt því að fara enda kostuðu miðarnir "an arm and a leg" eða heilan handlegg og fótlegg á góðri íslensku, en vá hvað ég hefði misst af miklu. Þessir tónleikar voru hreint út sagt frábærir. Ekki nóg með að röddin á drengnum er himnasending, þvílík stjórn sem hann hefur á henni, en þá er hann bara svo helv#&% sætur og skemmtilegur líka! Fékk líka þessi fínu sæti, sá yfir allt og drengurinn blasti við mér beint af augum næstu hele tiden, akkurat fyrir miðju. Já, töfrum líkast.. ætlaði varla að trúa því samt þegar fiðluleikarinn tók Come With Me, svoldið spes... þekki það bara í höndum P. Diddy eða hvað sem hann kallar sig í dag, þarf að finna Led Zeppelin útgáfuna svo ég virki meira hipp og kúl. Ég fatta annars ekki málið með þetta You Raise Me Up kjaftæði, að það sé eitthvað svipað laginu Söknuður eftir Jóhann Helgason... þarf að skoða það mál aðeins betur áður en ég felli dóm.

Ég held þetta sé orðið gott í bili... þar til næst :)

þriðjudagur, maí 08, 2007

it's times like these you learn to live again

it's times like these you give and give again

it's times like these you learn to love again

it's times like these time and time again

laugardagur, maí 05, 2007

Ég er fokkings hoppandi bullandi reið núna!!!

föstudagur, maí 04, 2007

Kleppari

Þetta = bloggleysi

11 Borð.. geri aðrir betur ;)