Aldan

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Bloggaðu druslan þín!!

Þetta voru frekar skýr skilaboð sem ég fékk frá Netverjanum áðan, maður þorir auðvitað ekki annað en að verða við kröfunni þó ég hafi svo sem ekki neitt að blogga um.

Ég fór á jólahlaðborð með vinnunni síðasta laugardag og ákvað að taka þetta með stæl, smakkaði kavíar, hreindýrapaté og snigla... ég sem er svo mikill gikkur...
Ég og Hrafnhildur fjárfestum í rauðvínsflösku og sátum svo allt kvöldið og spjölluðum um lífið og tilveruna... það var ekkert smá gaman að fylgjast með henni að störfum en áður en kvöldið var úti hafði hún komist að uppruna og framtíðarplönum allra þjónanna sem sáu um okkur, ég bjóst reyndar við því að hún yrði búin að redda öllum stelpunum deiti áður en þær héldu heim á leið. Að loknu borðhaldi sá Hrafnhildur mér fyrir fari til Hannfríðar þar sem var víst opið hús og góðmennt. Ágætis kvöld alveg hreint!

Sem stendur er ég ein í slotinu, aðrir fjölskyldumeðlimir eru staddir út í Bretlandi og enginn væntanlegur aftur á klakann fyrr en eftir helgi og þá vonandi með iPodinn minn í farangrinum. Ég og kettirnir höfum það fínt.. erum jafnvel að velta því fyrir okkur að bjóða fólki heim um helgina, það þýðir víst að ég þarf að ryksuga... ég gæti auðvitað dregið Mikka og Símon eftir gólfinu og svo hrist úr þeim yfir handriðið... við sjáum hvað kemur best út þegar nær dregur. Annars var mér sett fyrir það verkefni að skreyta íbúðina, ég og 100 pera serían góða höfum átt í ástar-haturssambandi í nokkur ár... á hverju ári vonast ég til að það kvikni ekki á henni en svo um leið og hún er komin upp þá er ég voða ánægð með hana... Spurningin er samt hvort ég eigi eftir að komast inn í geymsluna til að ná í jóladótið, þetta er dauðagildra þarna inni.. ef þið heyrið ekkert í mér fljótlega endilega hafið samband við viðeigandi björgunarsveitir :)

Ég lenti í þeirri skemmtilegu aðstöðu að þurfa að punga út 11 þús kalli fyrir að láta segja mér að það væri í lagi með bílinn hjá mér. Það var verulega sárt, hefði frekar vilja fjárfesta í buxum.. hefði geta keypt 2 stykki... en svona er þetta stundum. Alltaf finnst mér þó verkstæðin vera að snuða mig, eins og einn vinur minn sagði: þú er stelpa og því komast þeir upp með svona hluti.. ég veit ekki betur. Næst tek ég stóran og stæðilegan karlmann með mér og læt hann sjá um þetta :) Má ég sjá hendur á lofti ;)

föstudagur, nóvember 24, 2006

Það má með sanni segja að það eru litlu hlutirnir sem gera lífið skemmtilegt. Ég var ekki nema í korter á leiðinni heim, það telst lítið á virkum degi. Þetta vakti hjá mér mikla gleði.

Vellyktandi jóla Disney klósettpappírinn sem var keyptur í hallæri fyrir heimilið vekur einnig hjá mér mikla kátínu í hvert sinn sem ég þarf að bregða mér afsíðis... það þarf ekki mikið til að koma brosinu upp :)

Annað merki um að þetta sé minn dagur, ég á deit :) já, ok er að ýkja þetta smá.. Hann Mikki minn á deit við litlu kisustelpuna á neðri hæðinni, ég hitti T.H.B.G.F.D.S. (The Hot Black Guy From DownStairs) í gær og hann vildi endilega koma á stefnumóti milli þeirra. En hvaða fullorðni karlmaður kemur á kisustefnumóti nema hann sé yfir sig ástfanginn af eigandanum, ég bara spyr?? Þannig að já.. ég á deit :)

Ég finn aldrei eins mikla þörf hjá mér að blogga eins og þegar ég er búin að tilkynna að ég sé hætt að blogga og jafnvel búin að taka bloggsíðuna úr umferð. Ég fæ hugmyndir um langar færslur sem ég gæti skrifað um merkileg málefni, íhuga stefnubreytingar og ákveð að ég muni sko standa mig betur í stykkinu í þetta skiptið en svo um leið og ég geri síðuna virka á ný þá kemur ekkert upp úr mér! Tillögur um heimsfrið verða að bíða betri tíma, ég er andlaus og þá spyrjiði ykkur væntanlega: til hvers í óskupunum varstu að opna síðuna á ný.... þá segi ég bara: nú fyrir hana Hebu mína, ég vil ekki verða þess valdandi að hún hafi ekki neitt að lifa fyrir. Nei, ég held enn í vonina um að ég geti ropað upp úr mér einni almennilegri færslu svona endrum og sinnum, en ekki verða þær jafn mannbætandi og bloggin hjá Netverjanum og Flugmanninum. Ég held að það sé best að láta þá sem eru færir um þetta, sjá um slíkt. Þetta er eins og með pólitíkina, ég læt aðra um hana. Ég er viss um að hlutverk mitt í bloggheimum er óverulegt en ég veit ég get sett bros á nokkrar varir með vitleysunni í mér og ég hugsa að ég geti unað sátt við það dagsverk. Þið verðið bara að taka þessu ístöðuleysi með kalda vatninu!

Yesterday is history, tomorrow is a mystery, but today is a gift. That's why we call it the present.

Bippin

mánudagur, nóvember 13, 2006

Surprise!

Helgin, já þessi blessaða helgi. Á laugardaginn var komið að viðburði sem undirrituð hafði beðið spennt eftir í þó nokkurn tíma eða óvæntri afmælisveislu Netverjans! Eftir mikil plön og þó nokkrar breytingar á staðarháttum og öðrum smáhlutum var ákveðið að safna nokkrum einstaklingum saman í íbúð Flugmannsins og koma svo Netverjanum á óvart með púðakasti og öskrum sem voru síðan svo hljóðlát að þau heyrðust ekki einu sinni. Líklega hefur bílferðin sem flest þurftu að þola nokkrum mínútum áður farið svona illa með þau, skaðað þau fyrir lífstíð! Mútta ákvað að breyta sínum áætlun svo ég gæti nú farið með þessa einstaklinga í ferð lífs síns, en the code of silence sem ég bað alla viðkomandi um að sverja hindrar frekari umræður um þessa skemmtilegu ferð! En nóg um það, inni í Mosfellsbæ hafði Flugmaðurinn staðið yfir pottum tímunum saman en hann bauð upp á þessa gómsætu kjúklingasúpu, auðvitað var boðið upp á vín með matnum! Til stóð að við myndum fara niður í bæ eftir þetta allt saman en þegar til kom þá vildi enginn fara enda skemmtum við okkur stórvel þarna í sveitinni. Teknar voru merkilegar myndir sem gætu verið mikils virði í framtíðinni, brandarar þýddir yfir á ensku með misgóðum undirtektum, eitthvað kossaflens var í gangi en þó einungis fyrir myndatökur og þó ég muni ekki mikið þá veit ég að partíið endaði þar sem allir voru samankomnir inn í svefnherbergi Flugmannsins... ég skemmti mér stórvel :) Ég á samt í miklum erfiðleikum með að rifja upp einstaka hluta kvöldsins, ég veit ekki alveg hvernig það gat farið framhjá mér að aðilinn sem sat við hliðina á mér í leigubílnum á heimleið ældi í poka sem Hannfríður hafði sem betur fer tiltækan á réttum tíma... en svona er það nú bara! Ég gat ekki betur séð en að allir hafi skemmt sér vel :D

Annað mál var með sunnudaginn, þvílík þjáning, þvílík líðan!! Þegar ég vaknaði þarna á sunnudagsmorgninum hélt ég að nú væri bara allt búið, verkjatöflur og vatnsþamb höfðu engin áhrif á mig. Það var ekki fyrr en seinnipartinn sem ég treysti mér í strætóferð upp í Mosfellsbæ til að sækja bílinn og stólana sem við þurftum því við áttum von á gesti í mat! Á meðan ég beið eftir strætó sýndu rónarnir mér mikla athygli, greinilega hrifnir af úlpunni minni. Einn þeirra lýsti því yfir að hann vildi sko ekki vera með mér þar sem honum líkar alls ekki hvernig ég vinn, ég lít líka víst út eins og manneskja sem heldur að hún fái allt sem hún vill. Ég sagði honum bara að svo væri nú líka raunin og að ég hefði nú sjálf ekki mikinn áhuga á honum. Svo til að toppa þetta gekk einn þeirra alveg upp að mér og framhjá mér, greinilega búin að skíta á sig (eða var hann að gefa skít í mig? Ég er ekki viss) og það var akkurat það sem ég þurfti fyrir þessa hálftíma löngu ferð upp í Mosó, lyktin er enn í nösunum á mér :S! Seinna um kvöldið harkaði ég svo af mér og hitti Fellógengið góða ;) við vorum búnar að breyta plönunum svo oft að það kom ekki til greina að tilkynna sig veika, í staðinn vældi ég bara utan í þeim... en það var rosalega gaman að sitja og spjalla við þær enda langt síðan við sáumst síðast. Það má ekki líða svona langur tími á milli stelpur! En nóg um það ég er enn lifandi og ætla ekki að lyfta aftur vínglasi fyrr en 25. nóvember :) hehehe.. alveg satt... annars er ég að velta fyrir mér hvernig ég á að ná málningarslettunum úr feldinum hans Símonar :S bara heppni að hann er gulur OG hvítur.. fólk tekur ekkert eftir þessu, kannski læt ég þetta bara vera!

Frænkustand

Undirbúningur móttöku titilsins Frænka ársins 2006 er í fullum gangi, reyndar hef ég vanrækt skyldur mínar á þessu ári en reyni nú að bæta það með ýmsum leiðum. Fyrsta barn á dagskrá var hún Elísabet Anna :)

Ég ákvað að slá ekki slöku við og í sömu viku tók ég systkinin Daníel og Telmu (sjá myndir :) )með í smá kisurúnt sem byrjaði á Fornhaganum þar sem nýr heimilisköttur (sjá fyrri blogg) er búinn að koma sér vel fyrir. Greyið er reyndar enn nafnlaust en nöfn eins og Skuggi, Zorro og Dúskur (mitt persónulega uppáhald) liggur undir nefnd. Eftir það voru Mikki og Símon heimsóttir og að lokum fór ég með börnin á McDonalds þar sem þau fengu hollan og góðan kvöldverð! Mjög áhugavert allt saman... Næst á dagskrá eru hin skottin sem segjast ekki vera laus fyrr en í desember.... já ég veit allavega eitt af ykkur les þetta bull þó það sjáist ekki á kommentahólfinu *hint*hint*! Þið sleppið ekkert!

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Þessi 12 tölvupóstar frá yfirmanninum ættu að halda manni vakandi og á tánum þrátt fyrir einungis tveggja tíma svefn í nótt, enn er einn og hálfur tími eftir...


Must get through this shift!

Jólastemmning

Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Netverjans þá virðast jólin vera á næsta leyti. Búið er að tendra jólatré við Blómaval, jólalög farin að heyrast í útvarpinu, jóladótið er komið í hillurnar og ég veit ekki betur en ég hafi fundið piparkökulykt á götum úti. Ég og Jesúbarnið hún Auður vorum líka meðal annars að ræða um jólagjafir í gær. En ótengt jólum þá eru hún og Íris eru þær einu sem ég þekki sem geta farið og fara á kojufyllerí í bókstaflegri merkingu. Íbúðin hjá þeim er svo lítil að þær verða að sofa í koju og í gær lá Íris dauð í efri kojunni meðan Auður sat blindfull í þeirri neðri að tjatta við mig!! Það er nú meiri vitleysan! Stelpur, ég verð á hóteli þegar ég kem!!

Að öðru máli, ég fór með frænda mínum upp í Kattholt um daginn! Aldrei hefði mér dottið í hug að þetta væri svona mikið mál að ættleiða einn kött! Í fyrsta lagi þá þurfti hann að fylla út umsókn um ættleiðingu, 2 bls umsókn þar sem hann þurfti meðal annars að tjá sig um ástæðuna fyrir ættleiðingunni, hvort starfsmaður Kattholts megi koma óvænt í heimsókn til að athuga með aðstæður og þar frameftir götum! Jújú, hann fyllti þetta samviskusamlega út og svo fengum við að skoða kettina. Starfsmaðurinn gekk með okkur og fór frekar hratt í gegnum hvert herbergi að mínu mati, svo fer hann með okkur út og inn í annað bakhús þar sem enn fleiri kettir voru skoðaðir. Nú var frændi minn tilbúinn að velja sér dýr og við ætluðum aftur í fyrsta herbergið þar sem við höfðum séð nokkra ákjósanlega en þá var okkur neitað um það!! Vegna einangrunar var bannað að fara aftur frá bakhúsinu inn í aðalhúsið og þar af leiðandi yrðu ekki fleiri kettir skoðaðir í dag??? Hvað er málið, afhverju gat hún ekki gloprað þessu út úr sér áður en við yfirgáfum aðalhúsið svo við gætum bara einblínt á kettina þar inni í stað þess að sýna okkur veiku kisurnar?? Þetta þýddi að við þurftum að mæta þarna aftur næsta dag og frændi minn þurfti að taka annan rúnt til að skoða tilvonandi fjölskyldumeðlim. En svo kom líka í ljós að tilvonandi eigendur fá ekki kettina heim samdægurs?? Líklega þarf að meta umsóknina og athuga hvort viðkomandi sé hæfur sem tilvonandi kattareigandi! Að lokum þurfti hann að borga 6 þús fyrir dýrið, það er kannski skiljanlegt enda fyrir bólusetningu og geldingu en það er greinilega ekki hlaupið að því að ættleiða kött í dag!