Ég finn aldrei eins mikla þörf hjá mér að blogga eins og þegar ég er búin að tilkynna að ég sé hætt að blogga og jafnvel búin að taka bloggsíðuna úr umferð. Ég fæ hugmyndir um langar færslur sem ég gæti skrifað um merkileg málefni, íhuga stefnubreytingar og ákveð að ég muni sko standa mig betur í stykkinu í þetta skiptið en svo um leið og ég geri síðuna virka á ný þá kemur ekkert upp úr mér! Tillögur um heimsfrið verða að bíða betri tíma, ég er andlaus og þá spyrjiði ykkur væntanlega: til hvers í óskupunum varstu að opna síðuna á ný.... þá segi ég bara: nú fyrir hana Hebu mína, ég vil ekki verða þess valdandi að hún hafi ekki neitt að lifa fyrir. Nei, ég held enn í vonina um að ég geti ropað upp úr mér einni almennilegri færslu svona endrum og sinnum, en ekki verða þær jafn mannbætandi og bloggin hjá Netverjanum og Flugmanninum. Ég held að það sé best að láta þá sem eru færir um þetta, sjá um slíkt. Þetta er eins og með pólitíkina, ég læt aðra um hana. Ég er viss um að hlutverk mitt í bloggheimum er óverulegt en ég veit ég get sett bros á nokkrar varir með vitleysunni í mér og ég hugsa að ég geti unað sátt við það dagsverk. Þið verðið bara að taka þessu ístöðuleysi með kalda vatninu!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home