Aldan

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Rútínan

Morgunrútínan mín veitir mér bæði ánægju og visst öryggi, mér leiðist þegar bregður út af vananum. Hún byrjar um áttaleytið þegar ég logga mig út úr vinnunni og kveð dömurnar hátíðlega, oftast fæ ég kveðjur tilbaka en það fer eftir tunglstöðu og tíðahringjum hvernig þær hljóma. Á leiðinni út vona ég að ég þurfi ekki að skafa og að allir þessu blessuðu háskólanemar hafi sofið yfir sig eða ákveðið að taka strætó til tilbreytingar svo ég komist nú fljótt heim. Á leiðinni fæ ég nokkrar augngotur, sérstaklega ef ég þarf að stoppa á ljósunum á Grensásvegi (sem gerist b.t.w. ALLTAF) þar sem ég er yfirleitt með útvarpið hátt stillt og syng af öllum mínum lífs og sálarkröftum og dilli mér í takt við tónlistina. Takið samt eftir að þetta gerist ekki þegar ég er nývöknuð á morgnana, þá vil ég þögn og vil helst ekki opna munninn fyrr en klukkutíma ef ekki klukkutímum eftir að hafa glennt upp augun. Þannig ég get svo sem séð sjónarhorn þeirra sem þurfa að horfa upp á mig svona snemma morgnana, perkí as can be! Ef allt gengur að óskum renn ég í hlað heima hjá mér um 08:17, heilsa nágranna mínum á neðstu hæðinni sem er alltaf úti að reykja þegar ég mæti á svæðið, næ mér í Blaðið og ef allt gengur upp Fréttablaðið líka, þar sem það liggur ylvolgt á ofninum í ganginum. Mikki bíður við dyrnar þegar ég opna, og Símon kemur nokkrum sekúndum seinna og krefst þess að fá morgunknúsið sitt. Mikki vill bara harðfiskinn sinn en ég fæ að klappa honum smá í staðinn. Ég gef þeim að borða, fer í náttföt, kíki á tölvuna og afrekstur næturinnar, les fréttablaðið, tannbursta mig og leggst upp í rúm og ef ég er heppin þá sofna ég.
Þetta er akkurat það sem ég vonast eftir að gerist um leið og ég logga mig út núna á eftir :)

(Karl, ekki ranghvolfa augunum svona... mér leiðist og bloggmetnaður minn er enginn :) )

4 Comments:

  • Ranghvolfa augunum? Afhverju ætti ég að gera það? Mér fannst bara vanta nákvæma tímasetningu á hverjum lið. Hvað er Mikki til dæmis lengi að borða harðfiskinn sinn? Hversu mörgum lögum nærðu á leiðinni heim? Þessi pistill skilur svooo margar spurningar eftir sig!

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:52 e.h.  

  • Bara frábært blogg hjá þér eins og allt annað sem þú gerir ;)
    tjá Bella!!!!

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:54 f.h.  

  • Þú ert skemmtilegur penni Alda mín -þú bara veist ekki af því. ;)

    Kveðja,
    Magga

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:40 e.h.  

  • Takk fyrir þetta :)

    By Blogger Aldan, at 2:44 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home